„Skiptir engu máli hver á góðan leik“

Viktor sækir að marki FH í kvöld.
Viktor sækir að marki FH í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Mér fannst þetta sanngjarn sigur, við vorum með frumkvæðið og yfir nánast allan leikinn,“ sagði Viktor Sigurðsson, leikmaður Vals, sem skoraði sjö mörk í 30:23-sigri á FH í Kaplakrika í kvöld.

„Þessi leikur spilaðist bara nákvæmlega eins og ég bjóst við þannig séð, tvö frábær lið, mikil gæði í báðum liðum, sterkar varnir og mikill hraði. Svo í seinni náum við að halda betur vörninni og Bjöggi (Björgvin Páll Gústavsson) var frábær í markinu. Þegar það þurfti að keyra þá keyrðum við og hægðum þegar við þurftum,“ sagði Viktor í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Viktor meiddist í febrúar á þessu ári og missti því af stórum hluta síðasta tímabils en byrjar vel á þessu tímabili.

„Það var hund leiðinlegt að lenda í þessum meiðslum í fyrra og þurfa að horfa á liðið, seinni hlutann, uppi í stúku og ná ekki að hjálpa en það gaf mér meiri kraft til þess að gera allt sem ég gat til þess að koma vel til baka. Ég átti góðan leik í dag en það skiptir engu máli hver á góðan leik, svo lengi sem við vinnum þá er ég sáttur.“

Valur var fyrir leikinn í kvöld aðeins með þrjú stig í fjórum leikjum. 

„Tímabilið fór svolítið hægt af stað hjá okkur. Við erum með frekar nýtt lið og erum að spila okkur saman en það er allt að koma. Mér fannst við bæði í þessum leik og gegn KA síðasta mæta betur til leiks. Við erum með frábær gæði og hörku vörn eins og við sýndum í dag, við þurfum bara að vera með kveikt á okkur og þá getum við sigrað alla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert