Þekkir vel til andstæðinganna á EM

Díana Dögg Magnúsdóttir í leik með Blomberg-Lippe gegn Rauðu stjörnunni …
Díana Dögg Magnúsdóttir í leik með Blomberg-Lippe gegn Rauðu stjörnunni í undankeppni Evrópudeildarinnar á sunnudag. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik og leikmaður Blomberg-Lippe í Þýskalandi, er spennt fyrir því að mæta sterkum andstæðingum á EM 2024 sem hefst í næsta mánuði.

Ísland er í F-riðli með Hollandi, Þýskalandi og Úkraínu, sem leikinn verður í Innsbruck í Austurríki. Mótið fer fram þar í landi ásamt Ungverjalandi og Sviss og hefst í lok nóvember.

„Ég hlakka bara til og vona auðvitað að ég sé í lokahópnum. Við fáum Þjóðverja, Hollendinga og Úkraínu.

Mikið af þýsku leikmönnunum eru eða hafa verið að spila í Þýskalandi þannig að maður spilar kannski við marga af þeim á EM sem maður er oft að spila við í deildinni,“ sagði Díana Dögg í samtali við mbl.is.

Hún er því farin að þekkja vel til allnokkurra væntanlegra andstæðinga Íslands á Evrópumótinu.

„Það eru líka einhverjar í hollenska liðinu sem spila í Þýskalandi. Ég hlakka bara mikið til að takast á við það og geta sagt frá því hvað sumar þeirra eru vísar til að gera þar sem ég veit það,“ bætti Eyjakonan við.

Ítarlegt viðtal við Díönu Dögg birtist í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert