„Ekki einu sinni matvörubúð hérna“

Díana Dögg Magnúsdóttir í leik með Blomberg-Lippe.
Díana Dögg Magnúsdóttir í leik með Blomberg-Lippe. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

„Fyrstu mánuðirnir hafa eiginlega verið frábærir. Mér líður mjög vel hjá liðinu,“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið. Hún gekk til liðs við Blomberg-Lippe frá Sachsen Zwickau í sumar. Bæði lið leika í efstu deild í Þýskalandi.

„Bæði leikmenn og allir í kringum liðið taka á móti manni með opnum örmum og eru til í að hjálpa manni með allt til þess að maður sé fljótari að koma sér inn í liðið.

Ég tala þýsku þannig að það er kannski auðveldara fyrir mig en marga aðra að vera fljót að koma mér inn í allt saman. Þetta er búið að vera frábært hingað til,“ hélt Díana Dögg áfram.

Mikill munur á félögunum

Aðspurð sagði hún mikinn mun vera á félögunum tveimur.

„Já, það er alveg töluverður munur. Zwickau hafði náttúrlega ekki verið í efstu deild mjög lengi þegar ég kom þangað. Ég fór upp um deild á fyrsta árinu með þeim. Það er lítið félag og fáir í kringum liðið. Þjálfarinn sá um nánast allt nema að borga reikningana. Hann sá um að fá styrktaraðila og semja við alla leikmenn.

En hérna eru fleiri í kringum liðið og vel séð um að allt sé gert vel og rétt, að það sé farið rétt að hlutunum. Það var svo sem líka hjá Zwickau en það var öðruvísi af því að allt álagið var sett á einn mann en hérna er álaginu dreift, þjálfarinn þarf ekki að sjá um allt.“

Býr í pínulitlum bæ

Díana Dögg hefur komið sér vel fyrir í örsmáum bæ sem ber heitið Reelkirchen.

„Ég bý tíu mínútum frá Blomberg í pínulitlum bæ sem er í dag hluti af Blomberg. Þetta er mjög lítill bær eða sveit eiginlega. Það er ekki einu sinni matvörubúð hérna þannig að maður þarf að minnsta kosti að keyra inn í Blomberg til þess að versla í matinn og svona,“ útskýrði hún.

Viðtalið við Díönu Dögg má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert