Valur marði nýliðana

Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði átta mörk fyrir Val í …
Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði átta mörk fyrir Val í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Evrópubikarmeistarar Vals lentu í stökustu vandræðum með nýliða Fjölnis þegar liðin áttust við í sjöundu umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í Fjölnishöllinni í kvöld. Lokatölur urðu 35:34, Val í vil.

Með sigrinum stökk Valur upp úr áttunda sæti og í það þriðja þar sem liðið er nú með níu stig. Fjölnir er áfram í 11. og næstneðsta sæti með fjögur stig.

Mikið jafnræði var með liðunum stóran hluta fyrri hálfleiks en undir lok hans tókst Val að síga aðeins fram úr. Staðan í hálfleik var 18:15 fyrir gestina.

Í síðari hálfleik voru heimamenn í Fjölni fljótir að jafna metin og voru þeir komnir með undirtökin um hann miðjan þegar staðan var 24:27.

Fjölnir hélt naumu forskoti allt þar til um þrjár mínútur lifðu leiks. Þá jafnaði Valur metin í 33:33, skoraði svo tvö mörk til viðbótar sem nægði til þess að tryggja sigur með minnsta mun.

Markahæstur hjá Val var Úlfar Páll Monsi Þórðarson með átta mörk. Björgvin Páll Gústavsson varði 12 skot í marki liðsins.

Óðinn Freyr Heiðmarsson var þá markahæstur hjá Fjölni, einnig með átta mörk. Alex Máni Oddnýjarson og Björgvin Páll Rúnarsson bættu við sjö mörkum hvort og Haraldur Björn Þorleifsson skoraði sex.

Bergur Bjartmarsson varði 13 skot í marki Fjölnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka