Hefði tekið 9 marka sigri fyrirfram

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka.
Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka. Ólafur Árdal

Haukar unnu 9 marka sigur á HC Cocks frá Finnlandi í fyrri leik liðanna í 32 liða úrslitum Evrópubikarsins í handbolta á Ásvöllum í kvöld. Með sigrinum eru Haukar í fínni stöðu fyrir útileikinn sem fer fram um næstu helgi ytra.

Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka var ánægður með sigurinn í kvöld þó svo að leikmenn hans hafi slakað helst til mikið á í lok leiksins þegar gestirnir minnkuðu muninn úr 15 mörkum niður í 9 mörk með því að skora 6 mörk í röð. Spurður hvort Ásgeir væri ánægður með leikinn sagði hann þetta:

„Já ég er ánægður með 9 marka sigur. Við vorum að spila á móti fínu liði og mér fannst við gera margt mjög vel. Þetta var flottur leikur eftir erfiðan kafla hjá okkur undanfarið.

Síðustu 5 mínúturnar voru auðvitað ekkert glæsilegar sem sýnir okkur að um leið og við slökum á þá ganga hin liðin á lagi um leið og það er eitthvað sem við getum ekki leyft okkur. Þannig að það var bara fín áminning fyrir seinni leikinn.“

HC Cock skora síðustu 6 mörk leiksins og minnka muninn úr 15 mörkum niður í 9. Ástæðan er væntanlega ekki sú að gestirnir fóru allt í einu að spila svona vel eða hvað?

„Við slökum aðeins á og förum að klikka á frábærum færum, meðal annar þremur dauðafærum. Við getum ekki leyft okkur að slaka á í svona leikjum.“

9 marka forskot fyrir seinni leikinn á samt að duga ekki satt?

„Ég hefði tekið 9 marka sigri fyrirfram. Það er mikið forskot en eins og ég sagði áðan þá getum við ekki leyft okkur neina værukærð. Við erum bara góðir þegar við erum all-in alltaf. Um leið og við förum í þriðja gírinn þá erum við bara ekki nógu góðir. Þannig að við þurfum að spila í okkar hæsta gír um næstu helgi.“

Haukar spiluðu án Geirs Guðmundssonar og Ólafs Ægis Ólafssonar í dag. Verða þeir með í Finnlandi um næstu helgi?

„Við eigum bara eftir að sjá en mér finnst það ólíklegt. En við erum með Birki og hann var frábær í dag og það var ljós punktur í leiknum í dag.“

Er það samt ekki áhyggjuefni að vera án þeirra lengi þar sem Haukar eru þá kannski frekar þunnskipaðir sóknarlega upp á skiptingar og annað?

„Jú algjörlega. Við erum búnir að verða fyrir nokkrum skakkaföllum í þessu en við erum samt með flottan hóp og getum alveg stillt upp topp liði. Það er bara áskorun fyrir okkur þjálfarana að finna út úr því.““

Guðmundur Hólmar er að spila sinn fyrsta leik í dag eftir langa fjarveru. Hvernig kemur hann út úr þessum leik?

„Mér fannst hann koma frábærlega út úr þessum leik. Hann er ekki búinn að spila í marga mánuði og mér fannst hann bara koma frábærlega inn í þetta. Honum fylgir frábær orka og mikil leiðtogahæfni og hann leysti sínar skyldur vel í kvöld.“

Hans hlutverk er samt fyrst og fremst í vörninni til að byrja með ekki satt?

„Jú hann fór í þessa axlaraðgerð og er að ná sér upp úr því. Öxlin er enn á þeim stað að hann getur ekkert verið að kasta af neinu viti þannig að hann sér bara um vörnina til að byrja með,“ sagði Ásgeir Örn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert