Væri dásamlegt að fara á EM

Rut Arnfjörð Jónsdóttir fyrir æfingu í Víkinni í dag.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir fyrir æfingu í Víkinni í dag. mbl.is/Karítas

„Það er rosalega gaman að koma aftur inn í hópinn, vissulega í aðeins öðruvísi hlutverki en þetta er mjög gaman,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir fyrir æfingu íslenska landsliðsins í handknattleik í Víkinni í dag.

Rut, einn reyndasti leikmaður Íslands, er komin aftur í landsliðið eftir að hafa ekkert spilað á síðasta tímabili en hún eignaðist sitt annað barn í nóvember síðastliðnum.

Spurð hvað fælist í nýju hlutverki hennar með landsliðinu sagði Rut:

„Meira svona rétt að koma inn í hópinn. Ég er þannig séð nýkomin af stað aftur og er búin að vera lengi frá. Ég er kannski meiri stuðningur við stelpurnar og minna inni á handboltavellinum.“

Allt á réttri leið

Rut samdi við Hauka fyrir tímabilið, hefur verið í stóru hlutverki hjá liðinu og færist nær sínu besta formi.

„Mér líður mjög vel núna. Núna er ég búin að geta æft svolítið vel síðasta mánuðinn þannig að finn að þetta er á mikilli uppleið og er að ganga betur en ég er ekki alveg komin þar sem ég vil vera.

En ég er klárlega á réttri leið. Ég myndi segja að þetta hafi verið nokkuð jafnt og þétt eftir að við byrjuðum að spila eftir sumarið.

Ég var eiginlega ekkert búin að geta verið með fyrir það en svo koma leikir og þá kemst maður í betra leikform. Ég byrjaði að geta æft meira og þá kemur þetta klárlega hratt,“ útskýrði hún.

Reyni að vera bjartsýn

Fram undan eru tveir vináttulandsleikir gegn Póllandi annað kvöld og á laugardaginn.

„Við erum að fara að mæta hörkuliði, þær eru mjög sterkar. Þetta er lið sem hefur verið framar en við síðustu ár. Við viljum að sjálfsögðu nálgast þær, komast aðeins nær þeim. Þetta verður erfiður leikur,“ sagði Rut um mótherjana.

Hún sagðist vitanlega stefna að því að vera í lokahópnum sem fer á EM 2024 sem hefst eftir rúman mánuð.

„Já, það væri náttúrlega dásamlegt. Ég geri að sjálfsögðu allt til þess að vera í mínu besta standi og vonandi skilar það mér þangað. Það er ekki undir mér komið hvort ég verði í hóp en ég reyni að gera allt til þess að vera í mínu besta formi.“

Spurð hvort hún væri bjartsýn á að það tækist og hún færi með til Austurríkis sagði Rut að lokum:

„Akkúrat núna finnst mér búinn að vera mikill stígandi í þessu hjá mér þannig að ég ætla að reyna að vera bjartsýn en svo verðum við bara að sjá hvað verður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka