Búumst við særðum Pólverjum

Arnar Pétursson fer yfir málin með leikmönnum í kvöld.
Arnar Pétursson fer yfir málin með leikmönnum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Upplifun mín af þessum leik var mjög góð,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, eftir 30:24-sigur á Póllandi í vináttulandsleik í kvöld.

„Heilt yfir vorum við að sýna mjög góða frammistöðu í öllum þáttum leiksins. Það er til fyrirmyndar hvernig við mætum í þennan leik og skiluðum þessu af okkur með miklum sóma,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is eftir leik.

Íslenska liðið keyrði yfir það pólska í fyrri hálfleik og var níu mörkum yfir, 18:9, að honum loknum.

Pössuðum vel upp á boltann

Spurður hvað hafi orðið þess valdandi að spilamennskan var þetta góð í fyrri hálfleik sagði hann:

„Ég veit ekki hvað veldur því nákvæmlega annað en það að ef við horfum á okkur náðum við að loka vel á þeirra sóknarleik í bæði 6-0 og 5-1 vörn og svo var Hafdís að verja frábærlega. Við vorum að hlaupa ágætlega upp völlinn, kannski af meiri skynsemi en stundum áður.

Við vorum að halda vel í boltann og pössuðum betur upp á hann. Það er mikilvægt á móti þessum andstæðingum sem eru þetta sterkir, að halda vel í boltann. Við gerðum það vel heilt yfir allan leikinn.

Það er kannski aðallega það sem ég horfi á í þessum fyrri hálfleik. Svo ströggluðum við aðeins í seinni hálfleik sem er kannski heldur ekkert óeðlilegt en svo komum við aftur til baka.“

Kannski full mikið af því góða

Ísland átti slæman kafla í síðari hálfleik þegar Pólland minnkaði muninn niður í 24:21. 

Fór um þig þá?

„Nei, ekkert þannig séð. Auðvitað kom áhlaup hjá þeim, sjö mörk í röð, sem var kannski full mikið af því góða en við komum sem betur fer til baka eftir því og svöruðum því. Hrós á stelpurnar fyrir það, ég er mjög ánægður,“ sagði Arnar.

Liðin mætast öðru sinni á Selfossi á morgun.

„Nú þurfum við að halda áfram að horfa í frammistöðuna og ná annarri slíkri á morgun. Það má alveg búast við því að þær pólsku mæti særðar til leiks og verða grimmar þannig að við þurfum að svara því og vera tilbúnar.

Við þurfum að hugsa um okkur sjálfar, hugsa um okkar leik, það sem við erum að gera og einbeita okkur að því að gera vel á morgun,“ sagði landsliðsþjálfarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert