Keyrðum yfir þær í fyrri hálfleik

Elín Klara Þorkelsdóttir í leiknum í kvöld.
Elín Klara Þorkelsdóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst hjá Íslandi þegar liðið vann sterkan sigur á Póllandi, 30:24, í vináttulandsleik í handknattleik í Framhöllinni í Úlfarsárdal í kvöld.

„Ég er ótrúlega stolt af liðinu, mér fannst við spila ótrúlega vel í dag. Við mættum vel í þennan leik og við skulduðum heldur betur frammistöðu á móti þessu liði eftir síðasta leik á móti þeim. Heilt yfir er ég ótrúlega stolt,“ sagði Elín Klara eftir leik í kvöld.

Ísland var 18:9 yfir í hálfleik.

„Mér fannst vörnin frábær í fyrri hálfleik, svo vorum við líka að finna mjög góða vinkla í sókninni og fengum mörg hraðaupphlaup. Við erum með hraða og góða leikmenn og eigum að geta fengið þessi hraðaupphlaup sem munar svo mikið um.

Við keyrðum svolítið yfir þær í fyrri hálfleik, mættum ágætlega í seinni hálfleik en duttum aðeins niður um tíma. Svo kláruðum við þetta bara nokkuð sannfærandi,“ sagði hún um fyrri hálfleikinn.

Örvhenta datt í gírinn

Í síðari hálfleik náði Pólland mest að minnka muninn niður í þrjú mörk í stöðunni 24:21 eftir að gestirnir skoruðu sjö mörk í röð.

„Þessi örvhenta datt svolítið í gírinn hjá þeim og var að setja mörg auðveld mörk.  Þær voru að fá svolítið mikið úr seinni bylgjunni. Svo fannst mér við ná að loka á það. Við duttum aðeins niður og vorum kannski ekki nógu einbeittar en svo kom þetta,“ sagði Elín Klara.

Vísaði hún þar til Moniku Kobylinska, sem var markahæst hjá Póllandi með fimm mörk.

Gaman að mæta þeim aftur

Liðin mætast aftur á Selfossi klukkan 16 á morgun. 

„Það verður bara gaman að mæta þeim aftur. Við nærum okkur vel, sofum vel og mætum svo ferskar á Selfoss á morgun þar sem við ætlum okkur sigur.

Við ætlum að fá góða frammistöðu, það er það sem við erum að leitast eftir. Mér fannst við fá heilt yfir mjög góða frammistöðu frá öllum í dag,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert