Hefðum alveg getað unnið þá

Magnús Óli Magnússon úr Val skýtur að marki Melsungen í …
Magnús Óli Magnússon úr Val skýtur að marki Melsungen í kvöld. mbl.is/Hákon

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var nokkuð ánægður með frammistöðu Vals þrátt fyrir fimm marka tap gegn MT Melsungen í kvöld. Spurður út í leikinn sagði Óskar þetta:

„Hræðileg byrjun og erfið. Við klukkuðum þá ekki nægilega vel varnarlega og gerðum alltof mikið af tæknifeilum. Mér leist ekkert á blikuna í stöðunni 7:1 fyrir þá. Við vorum í vandræðum með Elvar en á sama tíma héldum við Mensing og Enderleit niðri á meðan þeir voru okkur mjög erfiðir í fyrri leiknum,“ sagði Óskar sem hélt síðan áfram.

„Þetta var samt skemmtilegur og flottur leikur. Mikill djöfulgangur og læti en leiðinlegt að hafa ekki náð að gera örlítið meira í lokin þegar þeir fara í 7 á 6 og komast fjórum mörkum yfir.“

Spurður út í jákvæðu hlutina sagði Óskar þetta:

„Jákvæði parturinn er samt að við erum með allt aðra orku en í fyrri leiknum gegn þeim úti og miklu betri frammistöðu.“

Þetta er samt alvöru leikur mestallan seinni hálfleik þar sem Valsmenn eru yfir á köflum. Síðan skilja leiðir svolítið þegar um fimm mínútur eru eftir. Var það þreyta sem skilur liðin að?

„Já, ég held það hafi verið smá bensínleysi í lokin. Þeir eru stórir og sterkir og við vorum agressífir. Síðan tekur gríðarlega orku gegn svona liði að vinna upp sex marka undirtölu og komast yfir. Á sama tíma gerum við klaufaleg mistök í að láta reka okkur út af í lokin og ofan á það koma tæknifeilar þannig að við vorum sjálfum okkur verstir í lokin.“

Valsmenn gera talsvert af mistökum þegar þeir eru í góðum tækifærum til að jafna eða komast yfir. Er mikið stress í leikmönnum í þessum Evrópuleikjum?

„Ég þori ekki að fara með það. Það er líka bara erfitt að halda 100% einbeitingu og gæðum í öllum sóknum. Við erum að gera of mikið af feilum. Í kvöld áttum við alveg möguleika á að vinna en þá þarftu að eiga stjörnuleik og fleiri hlutir þurfa að ganga upp. Það vantaði ekkert mikið upp á og ég held við hefðum alveg getað tekið þennan leik,“ sagði Óskar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka