Mistök þjálfarans kostuðu stig

Halldór Stefán Haraldsson ræðir við sína menn í gærkvöldi.
Halldór Stefán Haraldsson ræðir við sína menn í gærkvöldi. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Óheppileg mistök Halldórs Stefáns Haraldssonar, þjálfara karlaliðs KA í handknattleik, undir lok leiks liðsins gegn Stjörnunni í úrvalsdeildinni í gærkvöldi reyndust ansi dýrkeypt.

Leiknum lauk með jafntefli, 27:27, eftir að KA hafði komist tveimur mörkum yfir þegar skammt var eftir.

Akureyri.net greinir frá því að handvömm Halldórs Stefáns þegar hann ætlaði að taka leikhlé í stöðunni 27:26 er um hálf mínúta var eftir af leiknum hafi orðið til þess að boltinn var dæmdur af KA og leikmaður liðsins fékk tveggja mínútna brottvísun.

Ástæðan fyrir því var sú að KA bað ekki um leikhléið á réttan hátt. Þegar bjölluhnappur er ekki til staðar á tímavarðaborði ber þjálfara að leggja niður sérstakt grænt spjald á borðið til að gefa til kynna að hann hyggist taka leikhlé.

Halldóri Stefáni láðist að gera það og telst það til ódrengilegrar hegðunar. Viðurlögin eru ofangreind, Stjarnan komst af þeim sökum í eina lokasókn í stað KA og jafnaði metin þegar örfáar sekúndur voru eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert