Afturelding tók á móti Íslands- og deildarmeisturum FH í sannkölluðum toppslag í Íslandsmóti karla í handbolta í dag og lauk leiknum með sex marka sigri FH 35:29. Leikið var í Íþróttahúsinu á Varmá í Mosfellsbæ.
Eftir leikinn eru liðin jöfn á toppnum með 13 stig, FH í efsta sætinu en Afturelding í öðru.
FH skoraði 20 mörk í fyrri hálfleik
Fyrirfram var búist við sannkölluðum spennuleik en það reyndist ekki þannig því lið FH mætti mun ferskara í leikinn og náði fljótlega undirtökunum í leiknum með því að skora þrjú fyrstu mörk leiksins.
Mosfellingar voru í stökustu vandræðum varnarlega í fyrri hálfleik þar sem markvarslan var engin og línan hjá Aftureldingu var galopin. Það notfærðu FH-ingar sér og skoruðu þeir 6 mörk af línunni í fyrri hálfleik.
Eftir rúmlega 20 mínútna leik var staðan 14:7 fyrir FH, 7 marka munur og virtust Íslandsmeisturunum líða ansi vel á parketinu í Mosfellsbæ enda stutt síðan þeir lyftu Íslandsmeistaratitlinum þar.
FH-ingar héldu áfram að stýra leiknum og náðu mest 8 marka forskoti í stöðunum 16:8, 17:9 og 18:10. Mosfellingar náðu að minnka muninn niður í 6 mörk áður en FH-ingar skoruðu loka markið fyrir hálfleik.
Staðan í hálfleik 20:13 fyrir FH.
Birgir Steinn Jónsson skoraði 5 mörk, þar af eitt úr víti fyrir Aftureldingu í fyrri hálfleik. Undirritaði skráði enga markvörslu hjá Aftureldingu í fyrri hálfleik.
Jóhannes Berg Andrason skoraði 5 mörk fyrir FH í fyrri hálfleik og varði Daníel Freyr Andrésson 7 skot.
FH jók muninn aftur í 8 mörk í byrjun seinni hálfleiks áður en Mosfellingar náðu að minnka muninn niður í 5 mörk.
Þá tók Sigursteinn Arndal leikhlé enda vantaði lítið upp á hjá Mosfellingum að gera þetta að spennandi leik aftur.
Leikhlé Sigursteins verður að hrósa sérstaklega því lið FH hefur heldur betur fengið vítamínssprautu hjá þjálfaranum. FH-ingar juku muninn aftur í 8 mörk og gerðu gott betur, juku muninn í 9 mörk og þá voru aðeins 10 mínútur eftir af leiknum og honum í raun lokið.
Þá má segja að lið FH hafi slakað á taumhaldinu sem þeir höfðu á Aftureldingu sem náðu að minnka muninn niður í 4 mörk áður en FH-ingar tóku aftur við sér og unnu að lokum 6 marka sigur.
Markahæstur í liði Aftureldingar var Birgir Steinn Jónsson með 10 mörk, þar af 2 úr vítaskotum. Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 2 skot og Einar Baldvin Baldvinsson eitt skot.
Ásbjörn Friðriksson skoraði 9 mörk fyrir FH og Daníel Freyr Andrésson varði 9 skot.