Þorsteinn Leó Gunnarsson, landsliðsmaður í handknattleik, er ánægður með veru sína hjá portúgalska stórliðinu Porto hingað til.
Þorsteinn gekk í raðir Porto frá uppeldisfélaginu Aftureldingu í sumar en hann er í landsliðshópnum sem mætir Bosníu heima annað kvöld og Georgíu ytra næstkomandi sunnudag.
Leikirnir eru liðir í undankeppni EM 2026, Grikkland er þriðja lið riðilsins.
„Þetta byrjar mjög vel. Ég er búinn að bæta mig sem leikmaður og verð að halda því áfram,“ sagði Þorsteinn Leó.
Porto er í öðru sæti portúgölsku deildarinnar með tíu sigra og eitt tap eftir ellefu umferðir.
Liðið tapaði fyrir Portúgalsmeisturum Sporting á útivelli um síðustu helgi. Landsliðsmaðurinn Orri Freyr Þorkelsson leikur einmitt fyrir Sporting.
„Við erum í öðru sæti eftir að hafa tapað fyrir Sporting en þetta gengur ágætlega.
Við bættum okkur sem lið í því tapi. Það er alltaf gaman að spila gegn stórliði þar sem allt er pakka, svaka stemning og læti. Ég lærði mikið af þessu leik.“
Er ekki ákveðin stemning að mæta Íslendingi í þokkabót?
„Jú, klárlega. Alltaf gaman að sjá einhvern Íslending og fá að tala íslensku. Það er gaman að taka spjallið fyrir leiki og svona.
Þetta eykur auðvitað keppnisskapið, þú vilt vinna Íslending sem gerir þetta mjög skemmtilegt,“ bætti Þorsteinn Leó við.
Porto er einnig í Evrópudeildinni en liðið er meðal annars með Valsmönnum í riðli. Fyrri leikur liðanna á Hlíðarenda fór jafntefli.
„Við byrjuðum frekar brösuglega í Evrópudeildinni. Töpuðum gegn Melsungen og gerðum síðan jafntefli við Val. Nú erum við hins vegar í öðru sæti riðilsins og okkur líður vel.“
Hvað er síðan markmiðið hjá Porto fyrir tímabilið?
„Klárlega að vinna deildina og allt sem er í boði heima fyrir. Svo er markmiðið að komast í undanúrslit í Evrópudeildinni. Þeir tala mikið um það. Eftir það getur allt gerst.
Ég hef sjálfur ekki upplifað undanúrslitin en þetta er í einhverri stórhöll í Hamburg í Þýskalandi og það er sennilega frábært að spila þar. Væri geggjað að komast þangað,“ bætti Þorsteinn Léo við.
Nánar er rætt við Þorstein, sem og Orra Frey, í Morgunblaðinu á morgun.