Þórir Hergeirsson lætur af störfum sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik í næsta mánuði þegar EM 2024 lýkur.
Í löngu viðtali við norska ríkisútvarpið fór Þórir yfir 15 ára feril sinn með liðið. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og er raunar einstakur: tveir Ólympíumeistaratitlar, þrír heimsmeistaratitlar og fimm Evrópumeistaratitlar.
Hann sagði norska landsliðið undir sinni stjórn ávallt hafa reynt að halda í gildi sín, mikil vinna hafi verið lögð í það og því hafi liðið náð að forðast það að valda hneykslan.
Á HM 2017 í Þýskalandi fór norska liðið hins vegar gegn þessum gildum sínum. „Þá fannst mér við falla á prófinu,“ sagði Þórir.
Noregur mætti þá Frakklandi í úrslitaleik. Fyrir fram þótti norska liðið sigurstranglegra en Frakkar unnu að lokum 23:21.
„Frakkland vann leikinn af því að þær voru betri en við og við töpuðum verðskuldað. Eftir leikinn voru vonbrigðin vitanlega mikil og miklar tilfinningar.
Ef maður skoðar ljósmyndir frá verðlaunaafhendingunni var framkoma okkar ekki samkvæmt þeim gildum sem við stöndum fyrir. Það á ekki við um alla heldur marga.
Við heiðruðum ekki sigurliðið með viðunandi hætti og bárum ekki virðingu fyrir því að þær hafi verið betri en við,“ sagði hann.
Þórir var ekki sá eini sem tók eftir þessari framgöngu nokkurra leikmanna Noregs þar sem Alexandra Lacrabrere ræddi við norska dagblaðið VG eftir leikinn og sakaði þá um skort á virðingu og að það væri „yndislegt að sjá Noru Mörk gráta“.
Selfyssingurinn bætti því við í viðtalinu við norska ríkisútvarpið að norski hópurinn hafi unnið í sínum málum eftir leikinn.
„Við tókumst á við þetta og notuðum ljósmyndir sem dæmi um að það væri í lagi að verða leiður og fyrir vonbrigðum. Það er meira að segja í lagi að vera pirraður.
En einungis ef þú þiggur silfurverðlaunin og sýnir sigurvegaranum þá virðingu sem hann á skilið,“ sagði Þórir.