Gríðarlega mikilvægt

Orri Freyr Þorkelsson, til hægri, í leiknum í kvöld.
Orri Freyr Þorkelsson, til hægri, í leiknum í kvöld. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Orri Freyr Þorkelsson átti flottan leik og skoraði sex mörk þegar Ísland vann Bosníu Hersegóvínu 32:26 í undankeppni Evrópumóts karla í handbolta sem fram fer í Danmörku, Svíþjóð og Noregi árið 2026. Við ræddum við Orra strax eftir leik og spurðum hann hvað það hefði verið sem færði íslenska liðinu sigur á Bosníu.

„Þetta voru sanngjörn úrslit og við náðum að mynda fínan mun undir lokin. Heilt yfir vorum við vaxandi allan leikinn sem á endanum skilar okkur sex marka sigri og það er gríðarlega mikilvægt að byrja þessa undankeppni á sigri.“

Hvað er það sem skilar ykkur að lokum þessum sigri í ljósi þess að íslenska liðið var tveimur mörkum undir í seinni hálfleik?

„Við náðum að þétta raðirnar varnarlega og náum í stopp. Síðan skorum við úr flestum sóknunum okkar í lokin. Þegar Þorsteinn Leó kemur okkur þremur mörkum yfir þá fannst mér þetta vera alveg undir okkar stjórn.“

Markverðirnir verja í heildina 11 skot í kvöld. Er það nægilega gott í svona landsleik?

„Þeir vilja báðir klárlega verja fleiri bolta en eins og við sáum þá kom Bjöggi inn og varði mikilvæga bolta alveg eins og Viktor Gísli gerði í upphafi leiksins. Það er það sem skiptir máli í þessu sporti að markverðirnir verji á réttum tímapunktum og það sást klárlega í kvöld.“

Næsti leikur er á móti Georgíu. Ég ætla ekki að segja að það sé skyldusigur en Ísland ætlar klárlega að vinna þann leik, ekki satt?

„Við förum klárlega í þann leik til að vinna hann og þeir eru með fínt lið. Þetta verður langt ferðalag. Við reynum að mæta sem best stemmdir í þann leik og við ætlum klárlega að vinna þá,“ sagði Orri Freyr í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert