Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs HK í handknattleik, hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann eftir að hann hlaut útilokun með skýrslu eftir leik liðsins gegn Fram í úrvalsdeildinni í síðustu viku.
Leiknum, sem fór fram síðastliðinn fimmtudag, lauk með 26:25-sigri Fram og var Halldór Jóhann verulega ósáttur við að sigurmark Fram hafi fengið að standa og jós úr skálum reiði sinnar við dómara leiksins.
Á fundi aganefndar HSÍ í gær var það niðurstaða nefndarinnar að hann hljóti eins leiks bann vegna mjög ódrengilegrar hegðunar eftir leikinn.