Hann var stórkostlegur

Ómar Ingi Magnússon reynir skot úr aukakasti í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon reynir skot úr aukakasti í kvöld. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Ísland vann Bosníu Hersegóvínu 32:26 í undankeppni Evrópumóts karla í handbolta sem fram fer í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Björgvin Páll Gústavsson markvörður Íslands kom inn á í stöðunni 20:19 fyrir Íslandi og varði á nokkrum mikilvægum tímapunktum í leiknum þegar íslenska liðið var að leggja grunninn að sigrinum góða. Spurður út í leikinn sagði Björgvin Páll þetta:

„Þolinmæði og sjálfstraust var lykillinn að sigrinum í kvöld. Við vitum alveg hvað við erum góðir og vissum að við gætum þetta þó að það hafi komið seint í leiknum. Bosnía er líka mjög gott lið og spilaði vel. Við vorum með þennan leik aðeins í járnum þó að mér hafi alltaf liðið þannig að þetta væri í okkar höndum. Um leið og stuðningsmennirnir settu allt í gang þá var þetta aldrei spurning.“

Þú kemur inn á í byrjun seinni hálfleiks og nærð að verja nokkur skot á mikilvægum tímapunktum á sama tíma og Þorsteinn Leó jók muninn fyrir Ísland. Mætti segja að ykkar innkoma hafi lagt grunninn að því að íslenska liðið jók markamuninn?

Björgvin Páll Gústavsson átti flotta innkomu í kvöld.
Björgvin Páll Gústavsson átti flotta innkomu í kvöld. Eggert Jóhannesson

„Þorsteinn var á eldi í kvöld. Hann var stórkostlegur og átti þetta allt skilið í kvöld því hann er búinn að leggja þvílíkt á sig. Ég á ekkert í þessum sigri, það er miklu frekar Þorsteinn Leó. Ég mætti með smá orku en hann raðaði inn mörkunum og sýndi frábæran karakter. Við nutum þess að spila í seinni hálfleik og fengum áhorfendur með okkur þannig að þetta var bara góður orkusigur.“

Næsti leikur er á móti Georgíu á sunnudag í Tbilisi. Mætti segja að Bosnía sé ykkar erfiðasti andstæðingur á pappírum?

„Handbolti í dag er orðinn mjög jafn. Þú sérð Bosníu sem stóð vel og lengi í Portúgal. Georgía er kannski með færri leikmenn sem eru mjög góðir en þeir eru líka á móti betri en bestu menn Bosníu. Það er stórt hjarta í Georgíuliðinu og það verður erfitt að fara á þeirra heimavöll og vinna. En við erum að okkar mati miklu betri í handbolta og við þurfum að stýra leiknum á okkar forsendum og ef það tekst þá hef ég engar áhyggjur.“

Átti Íslenska liðið að klára þennan leik fyrr?

„Nei, mér finnst það ekki. Ég ber virðingu fyrir þeim sem mótherja. Þeir eru þunnskipaðir en vel skipaðir á meðan við erum með breidd og það útskýrir af hverju munurinn kom í lokin. Það var breiddin sem skóp þetta í kvöld.“

Hvað þarf svo til að vinna Georgíu á sunnudag?

„Þolinmæði og sjálfstraust alveg eins og í kvöld. Við lokum þeim leik ekki á fyrstu tíu mínútunum. Við lokum honum á 60 mínútum. Þegar við göngum þannig til leiks þá klárum við verkefnið. Við erum góðir í handbolta og við þurfum bara að sýna það,“ sagði Björgvin Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert