„Alvöru Evrópustemning í Valsheimilinu“

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals.
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er oft talað um að það sé betra að spila heimaleikinn seinna en ég held að það sé ekkert stærðarinnar atriði,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, fyrir fyrri leik liðsins gegn Kristianstad í 32-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handknattleik á morgun.

Leikurinn fer fram á Hlíðarenda og hefst klukkan 16.30.

„Við þurfum auðvitað að vera tilbúin í verkefnið á morgun. Við erum búin að æfa vel og undirbúa okkur vel. Okkur hefur gengið vel hérna heima þannig að það er gott sjálfstraust í liðinu. Það verður flott umgjörð í Valsheimilinu á morgun.

Það er vonandi að fólk fjölmenni á völlinn, sjái þessar íslensku stelpur sem eru að spila með þessu liði og hafa verið að gera vel og um leið okkar lið líka sem hefur spilað vel. Vonandi verður alvöru Evrópustemning í Valsheimilinu á morgun,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is.

Alltaf að sækja í sig veðrið

Spurður hvað honum þætti um umfjöllunina í aðdraganda leiksins og umgjörðina í kringum hann sagði Ágúst:

„Þetta hefur verið auglýst fínt og umgjörðin hefur verið glæsileg. Það er flott dagskrá fyrir leik sem er að fara í loftið núna í dag þannig að það er ekkert út á það að setja, síður en svo.

Ég vil ítreka að ég vona að hinir almennu handboltaáhugamenn fjölmenni á völlinn á morgun og styðji við bakið á stelpunum og um leið við íslenskan kvennahandbolta sem er alltaf að sækja í sig veðrið.“

Dagskráin fyrir Evrópuleikinn gegn Kristianstad á morgun.
Dagskráin fyrir Evrópuleikinn gegn Kristianstad á morgun. Ljósmynd/Valur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert