Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handknattleik, segir spennu í loftinu fyrir leik liðsins gegn sænska liðinu Kristianstad í fyrri leik þeirra í 32-liða úrslitum Evrópubikarsins á Hlíðarenda á morgun.
„Það er mikil spenna hjá okkur. Það er alltaf skemmtilegt að spila þessa Evrópuleiki og hvað þá á móti sænsku liði sem er með tvo íslenska leikmenn. Það er mikil spenna og tilhlökkun í hópnum,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is.
Í liði Kristianstad eru landsliðskonan Jóhanna Margrét Sigurðardóttir og Berta Rut Harðardóttir.
„Við erum búin að skoða þetta lið mjög vel og þær spila feikilega öfluga 6:0-vörn þar sem Jóhanna Sigurðardóttir er eiginlega bara akkerið í þeirra varnarleik og er að spila vörnina þeirra mjög vel.
Þær hafa á að skipa mjög sterkum markmanni og keyra mjög hratt upp og eru öflugar í hraðaupphlaupunum. Sóknarlega eru þær með mjög marga góða og jafna, flinka leikmenn og sérstaklega mjög sterkan línumann.
Það er klárt mál að við þurfum alvöru frammistöðu til þess að leggja þær að velli,“ sagði hann um andstæðingana í Kristianstad.
Fyrir dráttinn í 32-liða úrslit var Valur í efri styrkleikaflokki. Liðið hefði því getað fengið heppilegri drátt hvað styrkleika andstæðingsins varðar.
„Já, við hefðum alveg getað verið heppnari með drátt en að sama skapi er þetta kannski þægilegt ferðalag og einfalt. Það er skemmtilegt fyrir okkur að mæla okkur við sænsku liðin.
Sænska deildin hefur alltaf verið mun sterkari en sú íslenska. Við höfum samt talið íslenskan kvennahandbolta vera á uppleið og í ákveðinni framþróun. Þannig að það verður gaman að mæla okkur við þetta lið og gaman að sjá hvar við stöndum,“ sagði Ágúst.
Hefurðu einhverja tilfinningu fyrir því hvar þið standið gagnvart Kristianstad?
„Ég myndi fyrir fram giska á að þær séu nú líklegri en ég held að við séum nokkuð nálægt þeim í getu. Með góðum stuðningi áhorfenda eigum við ágætis möguleika á því að gera ágætis hluti hérna á heimavelli.
Það er auðvitað feikilega mikilvægt að ná strax í góð úrslit hérna heima,“ sagði þjálfari Íslands-, bikar- og deildarmeistara Vals.