Valur vann sterkan 27:24-sigur á Kristianstad frá Svíþjóð í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handbolta á Hlíðarenda í kvöld. Seinni leikurinn fer fram í Kristianstad eftir viku.
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir og Berta Rún Harðardóttir leika með Kristianstad.
Ákveðinn skrekkur var í Valsliðinu í upphafi leiks og komst Kristianstad í 5:3 snemma leiks. Valur svaraði vel, jafnaði í 8:8 og komst í kjölfarið tveimur mörkum yfir í stöðunni 10:8.
Liðin skiptust á að skora út hálfleikinn og var Valur með eins marks forskot þegar liðin gengu til búningsherbergja, 12:11.
Jafnræðið hélt áfram í seinni hálfleik og var staðan 14:14 þegar tæpar tíu mínútur voru búnar af honum. Þá kom fínn kafli hjá gestunum, sem komust tveimur mörkum yfir í fyrsta skipti frá því í upphafi leiks, 20:18.
Valur svaraði með næstu þremur mörkum og komst í 21:20 og náði svo þriggja marka forskoti í fyrsta skipti, 24:21. Liðin skiptust á að skora út leikinn og Valskonur fögnuðu vel í leikslok.