Fram gerði frábæra ferð til Hafnarfjarðar og vann öruggan sigur á Haukum, 28:20, í 9. umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.
Fram er áfram í öðru sæti, nú með 14 stig, og Haukar eru sæti neðar með 12 stig.
Eftir jafnræði framan af fyrri hálfleik náði Fram góðri stjórn á leiknum um hann miðjan og komst mest sjö mörkum yfir, 15:8, áður en Haukar löguðu stöðuna, sem var 15:11 í hálfleik.
Í síðari hálfleik var Fram við stjórn allan tímann og vann að lokum þægilegan átta marka sigur.
Lena Margrét Valdimarsdóttir var markahæst í leiknum með sjö mörk fyrir Fram. Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir og Steinunn Björnsdóttir bættu við sex mörkum hvor.
Darija Zecevic varði 12 skot í marki Fram.
Hjá Haukum var Elín Klara Þorkelsdóttir markahæst með sex mörk.