Fullt af gulrótum fram að jólum

Jóhannes Berg Andrason ræðst á vörn KA í kvöld.
Jóhannes Berg Andrason ræðst á vörn KA í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásbjörn Friðriksson fyrirliði FH var ánægður með 11 marka sigur á KA, 36:25, þegar mbl.is náði tali af honum strax eftir leik í kvöld.

Spurður að því hvað hann teldi helst útskýra stóran sigur FH í kvöld sagði Ásbjörn þetta.

„Mér fannst við vera með þá alveg frá upphafi. Við vorum góðir varnarlega og Danni heitur í markinu. Við hins vegar klikkuðum á 4-5 dauðafærum á fyrstu 10 mínútunum. Við áttum að vera komnir í gott forskot strax þá en KA er gott lið og auðvitað tekur tíma að vinna þá.

Síðan fara þeir í 7 á 6 sem heppnast mjög illa hjá þeim. Við nýttum það og köstuðum boltanum nokkrum sinnum í autt markið hjá þeim og þá var þetta búið fyrir þá.“

Enda segir taflan það

FH heldur samt 11 marka forskoti þrátt fyrir að skipta yngri og óreyndari leikmönnum inn á. Það hlýtur að segja okkur það að það er talsvert mikill getumunur á þessum liðum, ekki satt?

„Jú, mér finnst vera getumunur á þessum liðum enda segir taflan það. Við höfum verið góðir í haust á sama tíma og þeir hafa verið í erfiðleikum. Byrjunarliðið þeirra er sterkt og þeir eru með góða leikmenn. Við þurftum að hafa fyrir því að ná þessu forskoti.

Síðan þegar við náum þessum varnarleik á heimavelli og töpum örfáum boltum, fáum flott hraðaupphlaup og sóknir á sama tíma og við náum alltaf að koma okkur heim þá eðlilega fara lið sem hafa verið í erfiðleikum að ströggla eins og sýndi sig í kvöld.“

Ásbjörn Friðriksson.
Ásbjörn Friðriksson. mbl.is/Karítas

Ýmsir sjálfskipaðir handboltaspekingar höfðu áhyggjur af FH-liðinu með brotthvarfi Arons Pálmarssonar. Eftir stóran sigur í toppslag gegn Aftureldingu og svo stórsigur á KA í kvöld þá virðist ekkert geta stoppað FH, eða hvað?

„Við vorum búnir að vera í svakalegu prógrammi í haust þegar hann fer. Það gefur augaleið að þegar hann fer og það kemur enginn í staðinn þá fá aðrir stærra hlutverk. Við þurfum bara taka einn leik í einu og við þurfum að fara betur með sóknirnar. Við höfum verið að taka langar sóknir, agaðar og beðið eftir rétta færinu. Ef við gerum það þá á eftir að muna minna um að hafa misst hann.

Við erum samt einum manni færri í útilínunni og það var ekki jákvætt að missa hann. Við höfum samt alveg höndlað það ágætlega eins og á síðasta ári þegar hann var frá. Þetta róterar liðinu hjá okkur og það var högg að missa hann. En það þurfa aðrir að koma inn í hans hlutverk og reyna að fylla í hans fótspor.“

Hvaða áskoranir eru fram undan hjá FH núna?

„Við erum að spila núna tvo leiki í viku alveg til 20. desember. Nú er bara endurheimt og svo að undirbúa næsta leik, sjá hvað við getum gert betur og hvað við erum að gera vel. Það eru tvö skemmtileg Evrópuverkefni eftir, deildin og bikarinn. Það eru fullt af gulrótum fram að jólum,“ sagði Ásbjörn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert