Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, tilkynnti 18 manna leikmannahóp sinn sem tekur þátt á EM 2024, sem fer fram í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss frá 28. nóvember til 15. desember, í höfuðstöðvum Icelandair á Reykjavíkurflugvelli í gær.
Ísland er í F-riðli með Hollandi, Þýskalandi og Úkraínu og verður riðillinn leikinn í Innsbruck í Austurríki. 24 lið taka þátt á mótinu þar sem tvö efri liðin í sex riðlum tryggja sér sæti í milliriðli en neðri tvö falla úr leik; liðin sem komast ekki áfram leika ekki um sæti.
Ísland mætir Hollandi 29. nóvember, Úkraínu 1. desember og Þýskalandi 3. desember.
Íslenska liðið tekur þátt á öðru stórmóti sínu í röð og sínu fimmta frá upphafi eftir að hafa unnið Forsetabikarinn á HM 2023 í Danmörku, Noregi og Svíþjóð fyrir tæpu ári. Liðið tekur nú hins vegar þátt á sínu fyrsta Evrópumóti í 12 ár eða síðan árið 2012 og því þriðja í sögunni.
Þegar kom að valinu vakti mesta athygli að leikstjórnandinn Sandra Erlingsdóttir, leikmaður Metzingen í þýsku 1. deildinni, væri ekki í leikmannahópnum. Hún er nýfarin aftur af stað eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn, Martin Leo Daníelsson, fyrir fjórum mánuðum.
„Sandra kom inn í verkefnið gegn Póllandi fyrir um þremur vikum, þá þremur mánuðum eftir að Martin Leo kom í heiminn, og leit mjög vel út.
Hún hefur verið gríðarlega dugleg og samviskusöm og auðvitað var markmið hennar að komast inn á þetta mót. Hún hefði þurft aðeins lengri tíma. Á sama tíma er staðan sú að við erum vel mönnuð í þessari stöðu.
Bæði Elín Klara og Elín Rósa hafa verið að spila virkilega vel og eru orðnar virkilega öflugir leikmenn. Það er kannski það góða í þessari þróun að þær hafa verið að stíga mjög sterkar inn,“ útskýrði landsliðsþjálfarinn.
Viðtalið við Arnar má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.