Handknattleikskonan Þórey Anna Ásgeirsdóttir, hægri hornamaður Íslands-, bikar- og deildarmeistara Vals, hefur ekki gefið kost á sér í íslenska landsliðið í undanförnum verkefnum og var engin breyting þar á þegar 18-manna lokahópur var tilkynntur fyrir EM 2024 á miðvikudag.
Þórey Anna lék með Íslandi á HM 2023 í Danmörku, Svíþjóð og Noregi þegar liðið vann Forsetabikarinn. Hún tók svo þátt í tveimur leikjum gegn Svíþjóð í undankeppni EM 2024 snemma á árinu en hefur síðan ekki spilað landsleik.
„Við áttum ágætt samtal og þetta var niðurstaðan. Um það er svo sem ekkert meira að segja. Þórey Anna er frábær handboltakona og ég veit fyrir hvað hún stendur.
Ástæða þess að hún er í 35 manna hópnum er sú að ég vil halda því opnu að hún komi til baka. Hins vegar virði ég hennar ákvörðun,“ sagði Arnar í samtali við Handbolta.is.
Vísaði hann þar til þess að hún hafi verið á blaði þegar skila þurfti inn 35 manna leikmannalista til Handknattleikssambands Evrópu, EHF, yfir þá leikmenn sem kæmu til greina í lokahópinn sem var svo tilkynntur á miðvikudag.