Valur sló út Kristianstad

Lovísa Thompson skoraði sjö mörk í dag.
Lovísa Thompson skoraði sjö mörk í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvennalið Vals hafði betur gegn Kristianstad, 29:24, í Kristianstad í Svíþjóð í 32-liða úr­slit­um Evr­ópu­bik­ars­ins í hand­bolta í dag.

Valur var með þriggja stiga forskot fyrir leikinn en fyrri leikur liðanna endaði með 27:24-sigri Vals á heimavelli.

Staðan var 15:14 fyrir Val eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik. Liðin skiptust á að vera í forystu og það munaði aldrei meira en tveimur mörkum á liðunum.

Valur tók svo yfir í seinni hálfleik og lét forystuna aldrei af hendi. Valsliðið hefur unnið 38 leiki í röð.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Lovísa Thompson voru markahæstar með sjö mörk fyrir Val. Elín Rósa Magnúsdóttir skoraði fimm, Ásdís Þóra Ágústsdóttir fjögur, Thea Imani Sturludóttir og Sigríður Hauksdóttir tvö og Hildur Björnsdóttir eitt.

Hafdís Renötudóttir skoraði einnig eitt mark ásamt því að verja 15 skot og hún endaði með 39% markvörslu. Elísabet Milly Elíasardóttir varði eitt skot af tveimur sem hún fékk á sig.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði tvö mörk og Berta Harðardóttir eitt fyrir Kristianstad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka