Valsmenn mæta stórliði Vardar frá Skopje í Norður-Makedóníu í 5. umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik í Valsheimilinu að Hlíðarenda annað kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.45.
Fyrir leikinn er Valur í neðsta sæti F-riðilsins með eitt stig. Vardar er í þriðja með tvö, Porto í öðru með fimm og Melsugen efst með átta.
Ef Valsmönnum tekst að vinna annað kvöld og Porto tapar gegn Melsungen mun Valur fara í hreinan úrslitaleik við Porto um sæti í 16-liða úrslitum í Portúgal.
Óskar tilkynnti um leið að hann væri að hætta sem þjálfari Vals að yfirstandandi tímabili loknu. Þá muni Ágúst Þór Jóhannsson taka við Valsliðinu og hætta með kvennalið félagsins.
„Þetta verður sérstakt verkefni þar sem þeir eru búnir að skipta um þjálfara. Við erum að mörgu leyti að renna blint í sjóinn.
Það er Argentínumaður tekinn við liðinu og leikirnir sem við erum búnir að skoða og greina gætu verið allt öðruvísi en þessi á morgun.
Við ætlum að stíga svolítið á bensínið. Við breyttum aðeins um stíl í síðustu leikjum og fórum að keyra minna en við erum þekktir fyrir. Á morgun ætlum við hins vegar að láta vaða og reyna koma þeim í opna skjöldu,“ sagði Óskar Bjarni í samtali við mbl.is.
„Þeir eru með marga leikmenn og nýjan þjálfara þannig við getum ekki einblínt of mikið á hvað þeir verða með. Þetta er stórt og þungt lið með tíu erlenda leikmenn. Þetta er félag sem vann Meistaradeildina 2017 og 2019 og er að reyna koma sér aftur á þann stall,“ bætti Óskar Bjarni við.
Nánar er rætt við Óskar Bjarna um tíma hans með Val og framhaldið í Morgunblaðinu á morgun.