Franska stjarnan undir hnífinn

Dika Mem er einn besti handboltamaður heims.
Dika Mem er einn besti handboltamaður heims. AFP/Kirill Kudryavtsev

Evrópumeistarar Frakklands hafa orðið fyrir öðru áfalli þar sem þeirra stærsta stjarna, hægri skyttan Dika Mem, gekkst undir skurðaðgerð á öxl í dag.

Aðeins eru tæpir tveir mánuðir í að HM 2025 í Króatíu, Danmörku og Noregi fari af stað og verður Mem, sem leikur með stórliði Barcelona, því í kapphlaupi við tímann ætli hann sér að taka þátt á heimsmeistaramótinu.

Mem hefur átt í vandræðum með hægri öxlina á sér að undanförnu þar sem hún hefur nokkrum sinnum farið úr lið. Sá Barcelona sér því ekki annan kost í stöðunni en að koma honum undir hendur skurðlækna.

Ekki hefur verið gefið út hversu lengi Mem má eiga von á að vera lengi frá en Barcelona mun færa fregnir af því á næstunni.

Tveir leikmenn franska landsliðsins meiddust alvarlega fyrr í mánuðinum. Elohim Prandi fór úr axlarlið og Kylian Villeminot sleit hásin. Prandi á smá möguleika á að ná HM en Villeminot missir af mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert