Öllu tjaldað til á Hlíðarenda

Björgvin Páll Gústavsson og Milan Lazarevski í fyrri leik liðanna …
Björgvin Páll Gústavsson og Milan Lazarevski í fyrri leik liðanna í síðasta mánuði. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Valur fær stórlið Vardar frá Skopje í Norður-Makedóníu í heimsókn á Hlíðarenda í 5. umferð riðlakeppni Evrópudeildar karla í handknattleik í kvöld.

Valur er fyrir leikinn á botni F-riðils með eitt stig og Vardar er sæti ofar með tvö stig. Eini sigur Vardar til þessa kom einmitt gegn Val í Skopje í síðasta mánuði.

Mikið er í húfi í leiknum þar sem takist Valsmönnum að vinna og Porto tap­ar gegn Melsungen mun Val­ur fara í hrein­an úr­slita­leik við Porto um sæti í 16-liða úr­slit­um í Portúgal.

Eina stig Vals til þessa kom einmitt gegn Porto á eiginlegum heimavelli sínum í fyrstu umferð í Kaplakrika.

FH er einnig í eldlínunni í dag en liðið heimsækir Íslendingalið Gummersbach til Þýskalands í H-riðli.

FH er í neðsta sæti riðilsins með tvö stig líkt og Sävehof sæti ofar. Leikur FH hefst klukkan 17.45.

Dagskrá í Valsheimilinu fyrir leik

Sem fyrr býður Valur upp á dagskrá fyrir leikinn í Valsheimilinu sem hefst klukkan 18.30 þegar “fan-zone” fyrir bæði krakka og fullorðna opnar.

Klukkan 19.10 fer Anton Rúnarsson aðstoðarþjálfari yfir mótherjann á nokkurs konar töflufundi.

Tuttugu mínútum síðar hefst svo kynning á leikmönnum með tilheyrandi ljósasýningu og leikurinn hefst svo klukkan 19.45.

Dagskrá kvöldsins.
Dagskrá kvöldsins. Ljósmynd/Valur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert