Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar var svekktur með lið sitt þegar það tapaði með 9 marka mun fyrir Fram í 11. umferð Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld.
Stjörnumenn byrjuðu leikinn mjög illa og lentu 5:0 undir í upphafi. Spurður út í slæma byrjun og ennþá verri endi á leiknum sagði Hrannar þetta:
„Heilt yfir var leikurinn ekki góður af okkar hálfu. Við byrjum leikinn illa og lendum 5:0 undir. Síðan náum við að minnka niður í eitt mark í stöðunni 8:7 og svo missum við það aftur niður.
Þetta er svona týpísk staða í svona leik. Þú byrjar illa, minnkar muninn og síðan annað hvort nærðu þeim eða þeir skilja þig eftir í reyk og það seinna gerðist í kvöld.“
Tók það of mikla orku í upphafi að byrja á því að vinna upp þennan mun sem útskýrir stórt tap?
„Það tók mikla orku en við áttum næga orku eftir fyrstu 10 mínútur leiksins þannig að það er ekki afsökun. Við áttum bara alltof marga slæma kafla og úrslitin útskýrast síðan kannski af því að við förum í 7 á 6 og það gekk illa sem kostaði fullt af mörkum í bakið á okkur,“ sagði hann.
Næsti leikur er gegn HK og Stjarnan er að sogast niður í botnbaráttu eins og staðan er núna. Hvernig sérðu framhaldið?
„Það er ekki gott að vera þar. Við viljum meira en eins og staðan er í dag þá eigum við langt í land með að ná þessum efri liðum og þurfum að bæta verulega í og fá betri frammistöðu. Það á bæði við þjálfara og leikmenn,“ sagði Hrannar.
Stjarnan er með marga góða leikmenn innanborðs og fína breidd. Eru það meiðsli sem eru að valda því að Stjarnan er í vandræðum?
„Já, klárlega. Við erum með Tandra á annarri löppinni, Sveinn Andri meiddur, Egill meiddur, Benni meiddur, Daníel Karl er meiddur og Siggi Dan gat ekki verið með því hann var tæpur. Við erum samt með breidd og það komu menn inn í staðinn sem stóðu sig ágætlega. Ég ætla ekki að nota meiðsli sem afsökun, ég þoli það ekki!“ sagði hann.
Þannig að það er stefnt á sigur gegn HK?
„Það er ekkert annað sem kemur til greina,“ sagði Hrannar í samtali við mbl.is.