Tveggja leikja bann fyrir „illkvittna aðgerð“

Kári Kristján Kristjánsson í leiknum umrædda.
Kári Kristján Kristjánsson í leiknum umrædda. mbl.is/Hákon Pálsson

Handboltamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson, fyrirliði ÍBV, hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann af aganefnd Handknattleiksambands Íslands.

Kári var úrskurðaður í bann vegna atviks sem átti sér stað í leik Hauka og ÍBV í 16-liða úrslitum bikarkeppni karla á Ásvöllum þann 17. nóvember.

„Um var að ræða illkvittna aðgerð gegn óviðbúnum mótherja,“ segir meðal annars í úrskurði aganefndar. 

„Er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í tveggja leikja
bann,“ segir ennfremur í úrskurðinum.

Hann missir því af næstu tveimur leikjum ÍBV gegn HK, 22. nóvember í Kórnum, og gegn  Val, 30. nóvember í Eyjum, en ÍBV er með 11 stig í 6. sæti úrvalsdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert