Auðvelt hjá meisturunum gegn botnliðinu

Birgir Már Birgisson skoraði sjö mörk fyrir FH í kvöld.
Birgir Már Birgisson skoraði sjö mörk fyrir FH í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar FH unnu afar öruggan sigur á nýliðum ÍR, 41:24, þegar liðin mættust í 11. Umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í Skógarseli í Breiðholti í kvöld.

FH er áfram á toppi deildarinnar, nú með 17 stig, en ÍR situr enn á botninum með fimm stig.

FH var komið fimm mörkum yfir, 9:4, eftir rúmlega átta mínútna leik og leit ekki til baka eftir það. Staðan í hálfleik var 18:13.

Í síðari hálfleik bættu FH-ingar enn frekar í, náðu mest 18 marka forystu og unnu að lokum með 17 mörkum.

Birgir Már Birgisson var markahæstur í leiknum með sjö mörk fyrir FH. Jóhannes Berg Andrason bætti við sex mörkum og átta stoðsendingum.

Daníel Freyr Andrésson fór mikinn í mark FH-inga og varði 16 skot, sem gerir 42 prósent markvörslu.

Hjá ÍR var Jökull Blöndal Björnsson markahæstur með fimm mörk. Ólafur Rafn Gíslason varði 13 skot í markinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert