HK vann dýrmætan sigur í fallbaráttu úrvalsdeildar karla í handknattleik með því að leggja ÍBV örugglega að velli, 32:24, í 11. umferð deildarinnar í Kórnum í kvöld.
HK fór með sigrinum upp úr fallsæti og er nú í tíunda sæti með sjö stig. ÍBV siglir lygnan sjó í sjötta sæti með 11 stig.
Leikurinn var afskaplega jafn í fyrri hálfleik og munaði aðeins einu marki á liðunum að honum loknum. HK var þá yfir, 13:12.
HK náði fljótt undirtökunum í síðari hálfleik en ÍBV var þó ekki langt undan, eða þar til hálfleikurinn var hálfnaður.
Þá tóku heimamenn að sigla fram úr, ekkert gekk hjá Eyjamönnum og HK-ingar unnu glæsilegan átta marka sigur.
Ágúst Guðmundsson og Andri Þór Helgason voru markahæstir hjá HK með sjö mörk hvor.
Jovan Kukobat varði 13 skot í marki HK-inga og var með 37 prósent markvörslu.
Markahæstir hjá ÍBV voru Andri Erlingsson og Sigtryggur Daði Rúnarsson með sex mörk hvor.