Handknattleiksmaðurinn Arnór Snær Óskarsson er kominn til norska meistaraliðsins Kolstad. Hann kemur til norska félagsins frá Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi og gerir samning út sumarið 2026.
Arnór hittir fyrir bróður sinn, Benedikt Gunnar Óskarsson, hjá Kolstad sem og þá Sigvalda Björn Guðjónsson, Svein Jóhannsson og Sigurjón Guðmundsson. Bræðurnir Arnór og Benedikt voru lengi liðsfélagar hjá Val, hvar þeir eru uppaldir.
Arnór samdi við Rhein-Neckar Löwen sumarið 2023 en náði ekki að festa sig í sessi hjá liðinu. Hann var svo lánaður til Gummersbach seinni hluta síðustu leiktíðar, þar sem hann var liðsfélagi Elliða Snæs Viðarssonar og lærisveinn Guðjóns Vals Sigurðssonar.
Kolstad er sem stendur í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 20 stig, einu stigi minna en Elverum. Þá er liðið í sjötta sæti af átta í B-riðli Meistaradeildarinnar með sex stig eftir átta leiki.