Þrír mótherjar Íslands stungu af

Lið Kúbu hefur verið á mikilli uppleið undanfarin ár og …
Lið Kúbu hefur verið á mikilli uppleið undanfarin ár og mætir Íslandi á HM í janúar. Ljósmynd/IHF

Þrír leikmenn úr karlalandsliði Kúbu í handknattleik stungu af úr æfingabúðum liðsins í Frakklandi á dögunum en þar bjó liðið sig undir heimsmeistaramótið sem fram fer í Króatíu, Danmörku og Noregi í janúar.

Þar eru Kúbumenn einmitt í riðli með Íslendingum í Zagreb í Króatíu og liðin mætast í annarri umferð riðlakeppninnar 18. janúar. Lið Kúbu dvaldi í Frakklandi þar sem það mætti nokkrum þarlendum B-deildarliðum.

Vefmiðillinn Cuba Headlines skýrir  frá þessu og segir að þremenningarnir séu Diosel Rondón, Daril Lois González og Jorge Félix Prent. Þeir séu á aldrinum 21-23 ára og séu úr þeim hópi landsliðsmanna Kúbu sem leiki með félagsliðum í heimalandinu. 

Cuba Headlines segir að þetta sé algengt hjá kúbversku íþróttafólki sem vilji leita fyrir sér erlendis vegna slæms efnahagsástands í heimalandinu. Handknattleikslandsliðið hafi áður misst frá sér leikmenn á þennan hátt. Einn besti leikmaður liðsins, Omar Toledano, hafi stungið af í Mexíkó þegar liðið lék þar í undankeppni HM og þá hafi fimm leikmenn stúlknalandsliðs Kúbu látið sig hverfa á samskonar móti í Mexíkó.

Kúba var á árum áður framarlega í handboltanum og var fastagestur á HM frá 1982 til 1999. Á þeim tíma stakk einmitt lykilmaður liðsins, Róbert Julian Duranona, af og gerðist íslenskur ríkisborgari og landsliðsmaður. Nú er liðið hins vegar komið á HM í fyrsta skipti í 15 ár og aðeins í annað sinn á þessari öld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert