Afturelding mætir KA fyrir norðan í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik.
Dregið var í átta liða úrslitin í hádeginu en ÍR mun þá fá Stjörnuna í heimsókn.
Fram mætir Val eða Gróttu í Úlfarsárdal og ÍBV fær Selfoss eða FH í heimsókn. Leikjum Vals og FH var frestað vegna þátttöku þeirra í Evrópudeildinni og verða þeir spilaðir 9. desember.
Einnig er óljóst hvort að ÍBV verði í átta liða úrslitum en liðið tapaði fyrir Haukum en var dæmdur sigur út af broti Haukamanna á reglum HSÍ. Haukar ætla aftur á móti að áfrýja dómnum.
Leikirnir í átta liða úrslitunum eiga að fara fram 19. desember.