Takk fyrir að minna mig á það

Sunna Jónsdóttir.
Sunna Jónsdóttir. mbl.is/Óttar Geirsson

„Það er bara ótrúlegt. Ég er þakklát fyrir það og tilhlökkunin er mikil. Ég er stolt af því, bæði af sjálfri mér og liðinu,“ sagði Sunna Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið er hún var spurð hvernig það væri að vera á leið á sitt þriðja stórmót á ferlinum.

Fram undan er EM 2024 þar sem Ísland er í F-riðli með Hollandi, Þýskalandi og Úkraínu. Mótið fer fram í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss og er F-riðillinn allur leikinn í Innsbruck í Austurríki. Fyrsti leikurinn er á föstudag gegn Hollandi.

Sunna er 35 ára þrautreyndur leikmaður, öflugur varnarmaður sem leikur sem vinstri skytta í sókn. Hún var í leikmannahópnum þegar Ísland tók þátt á sínu fyrsta stórmóti á EM 2010, þá 21 árs gömul. Sunna fór svo með liðinu á HM 2023 og því eru 14 ár liðin síðan hún fór síðast á Evrópumót.

„Já, takk fyrir að minna mig á það!“ sagði Sunna í léttum dúr. „Maður var náttúrlega í allt öðruvísi hlutverki þar, var ung og frekar mikill nýliði. En svo er búinn að vera ótrúlegur uppgangur í þessu hjá okkur og liðið komið á góðan stað,“ hélt hún áfram.

Íslenska liðið hefur unnið hörðum höndum að því undanfarin ár að komast á þetta tiltekna Evrópumót.

„Við settum okkur markmið fyrir fjórum árum að komast inn á þetta Evrópumót, sem við náðum þannig að tilhlökkunin er mikil. Það var náttúrlega algjör gulrót að fá þetta svokallaða „wildcard“ til þess að komast inn á HM í fyrra.

Það var nú líka út af því að við höfðum náð góðum úrslitum og góðum árangri. Það var góð reynsla fyrir framhaldið að hafa fengið það mót svona aukalega,“ sagði Sunna.

Sambland margra þátta

Íslenska liðið tók þátt á þremur stórmótum í röð frá 2010 til 2012 en svo liðu ellefu ár þar til það komst loks aftur á stórmót í fyrra.

„Ég held að það sé engin ein ástæða, það voru margar ástæður fyrir því, en það er búinn að vera uppgangur núna. Yngri landsliðin og yngri stelpurnar eru að koma mjög sterkar inn. Líkamlegi þátturinn er orðinn betri, það er betri umgjörð í kringum allt.“

Viðtalið í heild sinni má sjá í Morgunblaði dagsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka