Færeyska kvennalandsliðið í handbolta náði í fyrsta stig þjóðar sinnar á stórmóti þegar liðið gerði jafntefli við Króatíu á EM kvenna í handbolta í dag, 17:17.
Þetta er í fyrsta sinn sem færeyska kvennalandsliðið tekur þátt á stórmóti í handbolta en liðið tapaði með þremur mörkum gegn Sviss í fyrsta leik liðsins á dögunum, 28:25.
Ekki var mikið skorað í Basel í dag en Króatía leiddi með einu marki þegar flautað var til hálfleiks, 9:8.
Það var síðan seint í síðari hálfleik sem Færeyjar komst yfir í leiknum og var staðan jöfn í 17:17 í dágóða stund undir lok leiksins.
Hvorugu liðinu tókst að skora sigurmarkið þó Færeyingar hafi fengið lokasóknina þar sem Jana Mittún fékk dæmdan á sig ruðning og við það rann leikurinn sitt skeið.
Jana var markahæst í færeyska liðinu í dag með fimm mörk en maður leiksins var að öðrum ólöstuðum fyrrum markvörður Hauka, Annika Fridheim Petersen, markvörður Færeyinga en hún varði 18 skot og var með 56% markvörslu.