Magdeburg styrkti á ný stöðu sína í toppbaráttu þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í dag með því að vinna öruggan sigur á Bietigheim á heimavelli, 35:26.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var drjúgur hjá Magdeburg og skoraði 5 mörk ásamt því að eiga fjórar stoðsendingar. Ómar Ingi Magnússon kom hins vegar lítið við sögu og lét eina stoðsendingu duga að þessu sinni.
Hannover-Burgdorf, þar sem Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari, vann stórsigur á Lemgo á útivelli, 31:22.
Hannover-Burgdorf komst þar með að hlið Melsungen á toppi deildarinnar með 20 stig. Füchse Berlín er með 19 stig, eftir sigur á Potsdam á útivelli, 36:26, Flensburg er með 17 stig en Magdeburg og Kiel 16 stig hvort. Magdeburg á leik til góða á hin liðin.