Enginn Íslandsmeistari á þessum tímapunkti

Þráinn Orri í varnarleiknum í kvöld.
Þráinn Orri í varnarleiknum í kvöld. Eggert Jóhannesson

Línumaðurinn stæðilegi Þráinn Orri Jónsson átti fínan leik í kvöld og skoraði þrjú mörk þegar Haukar unnu KA með 7 marka mun, 38:31, á Ásvöllum. Spurður út í leikinn í kvöld og hvað hafi skapað sigur Haukamanna sagði Þráinn þetta.

„Fyrstu 20 mínúturnar var það ekki varnarleikur og markvarsla. Mér fannst við alltof linir í vörninni og línan þeirra fékk of mörg færi. Sóknarlega vorum við hins vegar mjög beittir og hraðir. Við tókum hraðar miðjur og lögðum sóknarleikinn vel upp. Það var jákvætt.

Síðan dettum við niður í seinni hálfleik og missum þetta niður í tvö mörk en komum til baka og vinnum þetta á endanum mjög fagmannlega finnst mér.“

Ef við skiptum þessu niður í tvo hálfleika þá vinna Haukar fyrri hálfleikinn með 8 mörkum en tapa þeim seinni með einu marki. Hvað hefði mátt fara betur í seinni hálfleik?

„Það var í raun bara 7 - 8 mínútna kafli þar sem við gerðum mikið af tæknifeilum og tókum rangar ákvarðanir. Við ætluðum að keyra yfir þá og vinna þá þess vegna með 15 mörkum en það tókst ekki. En að sama skapi er kannski styrkleiki að hafa unnið þetta þægilega í lokin í stað þess að hleypa þessu upp í algjöra spennu.“

Næsti leikur hjá Haukum er gegn ÍR. Er það ekki skyldusigur hjá stórliði eins og Haukum?

„Auðvitað eigum við að vinna þennan leik. Hins vegar er það þannig að ef þú ferð með lélegt hugarfar í leik gegn liði eins og ÍR þá getur það farið illa eins og við lentum í bara fyrir tveimur árum. Við mætum bara með gott viðhorf og baráttuhug og þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur.“

Haukar eru í 3.-4. sæti ásamt Val. Eiga Haukar að vera ofar í deildinni?

„Auðvitað viljum við vera ofar. Það koma samt þarna 4-6 vikur í september og október þar sem við töpum stigum. Síðan finnst mér þessi Evrópuverkefni hafa snúið þessu við hjá okkur þar sem við erum búnir að vera á góðu skriði ef undan er skilinn leikurinn gegn Val.

Auðvitað viljum við vera ofar en svona er þetta og við þurfum bara að halda áfram. Það hefur enginn orðið Íslandsmeistari á þessum tímapunkti í deildinni,“ sagði Þráinn brosandi í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert