Úrslit leiksins standa

Leó Snær Pétursson jafnaði fyrir HK gegn Stjörnunni og markið …
Leó Snær Pétursson jafnaði fyrir HK gegn Stjörnunni og markið fær að standa. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Dómstóll Handknattleikssambands Íslands úrskurðaði í gær að úrslit í leik HK og Stjörnunnar í úrvalsdeild karla skyldu standa.

HK jafnaði þar metin í 27:27 úr vítakasti eftir að leiknum lauk en Stjarnan kærði leikinn á þeim forsendum að dómarar hefðu stuðst við myndbandsupptöku úr síma þegar þeir tóku ákvörðun um að leiktíma hefði ekki verið lokið þegar vítakastið var dæmt.

Í niðurstöðu dómsins segir að „dómararnir hafi þá ákveðið að taka ákvörðun út frá bestu sýn þeirra á staðreyndir og fullyrða þeir í skriflegum framburði sínum að engin ákvörðun hafi verið tekin út frá myndbandi eða útsendingu af leiknum."

Ennfremur sé hafnað þeirri „efnislegu kröfu kæranda að dómarar hafi farið út fyrir leikreglur við töku ákvörðunar."

Krafa Stjörnunnar var að félagið skyldi teljast hafa unnið leikinn 27:26 og til vara að leikurinn yrði spilaður að nýju. HK krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi. Dómstóllinn hafnaði öllum þessum kröfum og úrskurðaði jafnframt að málskostnaður skyldi falla niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert