Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, mun skipta um félag í Þýskalandi eftir áramót.
Þá mun hann fara frá Leipzig og til Erlangen. Þetta tilkynnti félagið í morgun og mun Viggó leika sinn síðasta leik fyrir Leipzig gegn Hannover-Burgdorf þann 27. desember.
Í frétt SportBild um daginn kom fram að Erlangen, sem er í næstneðsta sæti þýsku deildarinnar, hafi verið reiðubúið að greiða 35 milljónir króna fyrir Viggó en landsliðsmaðurinn var með samning hjá Leipzig til sumarsins 2027.
Viggó hefur verið á meðal markahæstu og bestu leikmanna deildarinnar undanfarin tímabil en hann gekk í raðir Leipzig sumarið 2022 frá Stuttgart.
Seltirningurinn hefur einnig leikið hjá Wetzlar í Þýskalandi, West Vien í Austurríki og Randers í Danmörku í atvinnumennsku.
Viggó verður með íslenska landsliðinu á HM í næsta mánuði en honum verður eflaust ætlað stórt hlutverk í fjarveru Ómars Inga Magnússonar.