Kolstad er norskur bikarmeistari í handbolta eftir sigur á Elverum, 28:27, í æsispennandi úrslitaleik í Unity-höllinni í Bærum í dag.
Norski landsliðsmaðurinn Sander Sagosen skoraði sigurmark Kolstad 18 sekúndum fyrir leikslok eftir að Sigvaldi Björn Guðjónsson hafði jafnað í 27:27 skömmu áður.
Sigvaldi var markahæstur í liði Kolstad með sjö mörk úr sjö skotum. Arnór Snær Óskarsson gerði tvö mörk og bróðir hans Benedikt Gunnar Óskarsson gerði eitt. Sveinn Jóhannsson komst ekki á blað.
Kolstad hefur nú orðið bikarmeistari þrjú ár í röð, ávallt eftir sigur á Elverum.