Fram sigraði Gróttu með níu marka mun, 31:22, í 10. umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik í Úlfarsárdal í dag.
Grótta er í áttunda og neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig og Fram er í öðru sæti, aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Vals.
Gestirnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru marki yfir þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum. Fyrri hálfleikur var jafn og Grótta aðeins einum eða tveimur mörkum undir en þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik skipti Fram um gír og komst fjórum mörkum yfir.
Staðan var 14:10 í hálfleik og Grótta sá aldrei til sólar í seinni hálfleik.
Alfa Brá Hagalín og Þórey Rósa Stefánsdóttir voru markahæstar hjá Fram með sex mörk. Ethel Gyða Bjarnasen varði 18 skot hjá Fram, þar af tvö víti, og var með 55% markvörslu.
Ída Margrét Stefánsdóttir var markahæst hjá Gróttu með átta mörk. Anna Karólína Ingadóttir varði níu skot og Andrea Gunnlaugsdóttir fjögur.