KA/Þór kom sér betur fyrir á toppi 1. deildar kvenna í handknattleik í kvöld með því að vinna varalið Fram, 29:21, í Úlfarsárdalnum í Reykjavík.
Akureyrarliðið náði þar með fjögurra stiga forystu en þegar deildin er hálfnuð er KA/Þór með 17 stig og HK og Afturelding eru með 13 stig hvort í öðru og þriðja sæti.
Aþena Einvarðsdóttir og Susanne Petersen voru markahæstar hjá KA/Þór með sex mörk hvor en Matea Lonac átti stórleik í markinu og varði 21 skot.
Sóldís Rós Ragnarsdóttir var markahæst hjá Fram með átta mörk og Ethel Gyða Bjarnasen varði 14 skot.