„Miðað við hvernig þetta þróaðist þá var þetta sanngjarn sigur,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals eftir 31:28-sigur Vals gegn Fram í toppslag úrvalsdeildar kvenna í handbolta í kvöld.
„Ég var mjög ánægður með seinni hálfleik, mér fannst hann mjög góður og við náðum að spila mjög vel. Við náðum að keyra ágætlega á þær, varnarleikurinn var góður og Hafdís (Renötudóttir markmaður) var betri í seinni hálfleik.
Heilt yfir fannst mér sóknarleikurinn góður og varnarleikurinn varð aðeins betri í seinni hálfleik og er gríðarlega ánægður að ná í þennan sigur,“ sagði Ágúst í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
Valur hefur sigrað alla leiki tímabilsins hingað til. Fram hefur gert tvö jafntefli og tapað tveimur leikjum, báðum gegn Val.
„Fólk verður auðvitað bara að gera sér grein fyrir því að Fram er með hörkulið, fullt af landsliðskonum og útlending í markinu og gríðarlega vel þjálfað lið og það er ekkert auðvelt fyrir okkur á móti þessum liðum.
Fólk gerir ráð fyrir því að við vinnum alla leiki endalaust en þetta er bara ekki svona einfalt,“ sagði Ágúst eftir 40. sigurleik liðsins í öllum mótum í röð.
Lilja Ágústdóttir var ekki í leikmannahópi Vals í dag en hún tognaði í landsliðsverkefni í september. Þá var talað um að hún væri frá í rúman mánuð.
„Lilja verður frá í einhverjar fjórar viku í viðbót en fjölmiðlar tala ekkert um það þegar það eru meiddir leikmenn hjá Val.“