Horfum lítið á töfluna

Lena Margrét Valdimarsdóttir og Steinunn Björnsdóttir í leiknum í kvöld.
Lena Margrét Valdimarsdóttir og Steinunn Björnsdóttir í leiknum í kvöld. Karítas Sveina Guðjónsdóttir

„Það kom kafli í seinni hálfleik þar sem við missum taktinn örlítið, bæði varnarlega og sóknarlega, og við megum ekki við því gegn liðum eins og Val,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Fram, eftir 31:28-tap gegn toppliði Vals í úrvalsdeild kvenna í handbolta á Hlíðarenda í kvöld.

„Mér fannst við heilt yfir spila gríðarlega vel og standa okkur frábærlega. Það var mikill karakter í liðinu, við spiluðum góða vörn og vorum að keyra upp hraðann.

Svo eru smáatriði hér og þar, við vorum að missa aðeins maður á mann varnarlega, vantaði aðeins betra tempó sóknarlega í aðgerðum hjá okkur og við megum ekki við því að klikka á smáatriðum, við þurfum að hafa allt tipp topp til að ná í úrslit en því miður var þetta niðurstaðan í kvöld.“

Valur er með sex stiga forskot á toppi deildarinnar og hefur ekki tapað leik á tímabilinu.

„Satt best að segja þá horfum við lítið á töfluna. Við erum að horfa á liðið og framþróun liðsins hvernig við erum að reyna að bæta okkur með hverjum leik. Það er vitað mál að Valur er með gríðarlega öflugt lið en jú, sigur í dag hefði mögulega sett smá spennu í einhvers konar toppbaráttu en við erum fyrst og fremst að horfa á það að við séum að bæta okkur með hverjum leik. Það er markmiðið hjá okkur og mér finnst það vera að gerast.

Liðið er í framþróun og er að bæta sig. Stelpurnar lögðu mikið á sig í pásunni og bara í allan vetur. Þetta eru rosalegir fagmenn og miklar íþróttakonur og svo erum við að horfa á það að toppa á réttum tíma í vor.“ 

Arnar Pétursson, aðstoðarþjálfari liðsins og þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, sá um bæði leikhlé liðsins í dag en hann er að þjálfa nokkra leikmenn Vals í landsliðinu og var síðast með þær í verkefni í desember. 

„Það kemur því ekki við að hann sé að þjálfa þær á öðrum vígstöðum. Þetta er bara í flæði hjá okkur. Stundum tekur hann leikhlé, stundum gerði ég það, stundum tekur hann klefann og stundum ég. Þetta er bara verkaskipti og við finnum taktinn hjá okkur og svona var þetta í dag sem er bara flott.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert