Jesper Jensen lætur af störfum sem þjálfari danska kvennalandsliðsins í handbolta í sumar, einu ári áður en samningur hans við danska sambandið átti að renna út.
Þórir Hergeirsson hætti með norska kvennaliðið eftir að hann gerði það að Evrópumeistara í lok síðasta árs en Þórir er sigursælasti landsliðsþjálfari heims eftir tíma sinn í Noregi.
„Ég hef heyrt það nokkrum sinnum að Jensen var ósáttur við að geta ekki verið meira með liðinu sínu en ég átti ekki von á að hann myndi hætta áður en hann vann stórmót,“ sagði Þórir um uppsögn þess danska í samtali við Nettavisen.
„Þú verður að njóta þess að vera í svona starfi. Það er betra að hætta en að líða illa í starfinu þínu,“ bætti hann við.
En hvað ætlar Þórir að gera ef danska sambandið býður honum starfið?
„Ég ætla að taka mér smá pásu núna og sjá hvernig málin þróast. Ég hef ekkert hugsað út í danska liðið og ég hefði frekar haldið áfram með norska liðið en að taka við því danska núna.
Núna ætla ég að eyða tímanum í eitthvað annað. Við sjáum hversu lengi það endist,“ sagði Þórir.
Nettavisen heyrði einnig í Morten Henriksen, formanni danska handknattleikssambandsins, og spurði hvort það kæmi til greina að ráða Þóri.
„Við erum ekki komin svo langt. Það eru margir mögulegir eftirmenn Jensen,“ svaraði hann.