Valur og Málaga Costa del Sol gerðu 25:25-jafntefli í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handbolta í kvöld í Málaga á Spáni.
Valur byrjaði viðureignina betur og komst þremur mörkum yfir 8:5 eftir tíu mínútna leik. Þá tók við góður kafli Málaga sem náði að jafna metin, 10:10.
Valur náði aftur forystunni og var staðan 15:13 fyrir Val í hálfleik.
Málaga byrjaði síðari hálfleikinn betur og náði að jafna metin í 18:18. Mikið jafnræði var með liðunum í lok leiksins og var staðan 24:24 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.
Elisabet Cesareo Romero kom Málaga yfir þegar 18 sekúndur voru eftir af leiknum og stefndi allt í sigur Málaga. Í lokasókn Vals skoraði Thea Imani Sturludóttir og jafnaði metin, 25:25.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst fyrir Val með sex mörk. Joana Resende skoraði sex mörk fyrir Málaga.
Seinni leikur liðanna fer fram á Hlíðarenda næsta laugardag.