„Það er geggjað að vera komnar áfram en það þýðir meiri fjáraflanir, það er partur af þessu,“ sagði Alexandra Líf Arnarsdóttir leikmaður Hauka í handbolta en liðið er komið í átta liða úrslit í Evrópubikarnum eftir 24:22-sigur liðsins gegn úkraínska liðinu Galychanka Lviv á Ásvöllum í dag.
„Við vorum með geggjaða vörn í fyrri hálfleik sem ég held að hafi skilað þessum sigri. Svo pössuðum við að mæta grimmar í seinni en ég held við kláruðum þetta svona næstum því í fyrri,“ sagði Alexandra í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
Haukar komust níu mörkum yfir en gestirnir áttu góðan kafla undir lok leiks og minnkuðu muninn í tvö mörk. Alexandra hafði þó engar áhyggjur af því.
„Nei nei, við höfðum allan tímann trú á þessu, við vorum ekkert að fara að missa þetta frá okkur.“
Haukar eru komnir í átta liða úrslit í Evrópubikarnum sem getur þýtt dýrt ferðalag.
„Við förum beint í að safna fyrir næstu umferð en þetta er mjög spennandi. Við söfnum sjálfar fyrir þessu með hjálp frá Hafnarfjarðarbæ og félaginu en við söfnum fyrir mestu af þessu. Það er gaman að komast áfram en þetta er hörkuvinna. Við erum búnar að fara í bílabón og selja fisk og héldum 17. júní.
Það verður bara gaman að sjá hverjum við mætum og Evrópukeppnin hefur verið skemmtileg hingað til.“