Norska stórliðið gjaldþrota

Katrine Lunde, markvörður Vipers Kristiansand.
Katrine Lunde, markvörður Vipers Kristiansand. Ljósmynd/Jon Forberg

Norska handknattleiksfélagið Vipers Kristiansand, eitt fremsta kvennalið heims um langt árabil, er gjaldþrota. Félagið hefur þegar hætt starfsemi og stjórn þess ákveðið að bjóða það út.

„Það er með sorg í hjarta sem við finnum okkur knúin til þess að tilkynna að stjórn Vipers hefur ákveðið að hætta rekstri og bjóða félagið út.

Stjórnin tók ákvörðunina eftir ítarlegar úttektir á fjárhagsstöðu klúbbsins og skort á tækifærum til frekari reksturs. Kveikjan að ákvörðuninni er skortur á rekstrarábyrgð fyrir yfirstandandi tímabil, ásamt lausafjárskorti,“ skrifar Jörgen Uleberg, markaðsstjóri félagsins, í tilkynningu.

Vipers Kristiansand hefur staðið frammi fyrir mikilli óvissu á yfirstandandi tímabili. Peter Gitmark, þáverandi stjórnarformaður félagsins, tilkynnti í október síðastliðnum að Vipers Kristiansand þyrfti að safna 25 milljónum norskra króna, 332 milljónum íslenskra króna, innan þriggja daga til þess að forðast gjaldþrot.

Gjaldþrot virtist ætla að verða niðurstaðan þá en fjárfestar komu til skjal­anna á ög­ur­stundu, tóku yfir félagið sem nýir hluthafar og hugðust greiða úr mikl­um fjár­hags­vand­ræðum þess, sem nú er ljóst að tókst ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert