Handknattleiksþjálfarinn Þórir Hergeirsson, sem hætti með norska kvennalandsliðið fyrir jól, hefur opinberað hvað Jesper Jensen, fráfarandi þjálfari danska kvennalandsliðsins, gaf honum á fréttamannafundi eftir úrslitaleik liðanna á EM 2024 í síðasta mánuði.
Jensen hrósaði Þóri í hástert eftir að Noregur lagði Danmörku í úrslitum og gaf honum gjöf og hefur Selfyssingurinn nú greint frá hvað leyndist í pakkanum.
„Það var danskur Hoptimist í pakkanum. Það var indælt að fá þessa gjöf,“ sagði Þórir í samtali við Nettavisen.
Hoptimist er dönsk hönnun; glöð fígúra sem á að tákna hamingju, mikla orku og gott skap.
Spurður hvers vegna hann teldi að Jensen hafi gefið sér slíka gjöf sagði Þórir:
„Ég veit það ekki en ég hef gaman að svona fígúrum. Kannski var þetta táknrænt. Ég hef átt mjög gott kollegasamband við Jesper. Hann hefur alltaf komið hreint fram og er strákur með góð gildi, áreiðanlegur gaur.“
Hann var þá spurður út í starfið hjá Danmörku, en Jensen hættir með danska liðið í sumar, og ítrekaði Þórir að hann hefði ekki áhuga á að taka við því starfi, að minnsta kosti ekki að sinni.